Hjólasprettur og Jón Margeir hafa gert með sér samstarfssamning.

Cervélo frá Hjólasprett

Hjólasprettur og Jón Margeir hafa gert með sér samstarfssamning. Markmið samningsins er að styðja   Jón Margeir til þátttöku í þríþrautarkeppnum á Íslandi og erlendis.

Sundmanninn Jón Margeir þarf vart að kynna en þjóðin kynntist honum þegar hann tók þátt í Paralympics í London 2012 og sigraði 200 metra skriðsundið í sínum fötlunarflokki í beinni útsendingu. Hann hefur náð frábærum árangri í sundinu sem sjá má á hans helstu afrekum undanfarin ár. Hann vann silfur á Heimsmeistaramótinu 2013 og varð sexfaldur Norðurlandameistari 2013. Jón Margeir vann gull á Evrópumeistaramótinu 2014, silfur á Heimsmeistaramótinu 2015 og silfur á Evrópumeistaramótinu 2016. Jón Margeir vann gull í liðakeppni hálfs járnkarls SH 2014.

Síðan söðlaði hann um og fór í frjálsar íþróttir þar sem hann  varð fjórfaldur Íslandmeistari, með 4 ný Íslandsmet á Íslandsmótinu innanhúss í frjálsum íþróttum 2017. Jón Margeir var einnig íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra 2010, 2011, 2012 og 2014 ásamt því að vera íþróttamaður Reykjavíkur 2012 og íþróttamaður Kópavogs 2012, 2015 og 2016.  Íslandsmet Jóns Margeirs í sundi eru nú rétt um 140 og heimsmetin eru að nálgast annan tuginn.

Jón Margeir hefur sett stefnuna á þríþaut í framtíðinni og mun hjóla á Cervélo P series þríþrautarhjólum frá Hjólaspretti.